Tíminn líður og nú eru að verða komin sex ár frá því að covid-heimsfaraldurinn skall á. Covid-faraldrinum fylgdu miklar sviptingar í hagkerfum heimsins en vaxandi alþjóðlegt óöryggi og stríðsátök í kjölfarið hafa ekki hjálpað til við að ná aftur jafnvægi. Ein af lífseigum afleiðingum alls þessa er almennt há og þrálát verðbólga í flestum hagkerfum, sem er í dag eitt af mikilvægustu viðfangsefnum bæði ríkisstjórna og seðlabanka víða um veröld.
Þótt við flest þykjumst vita nokkurn veginn hvað verðbólga er þá er hún ekki endilega vel skilgreint né auðveldlega mælanlegt fyrirbæri. Þannig eru mælingar á verðbólgu mjög breytilegar á milli landa, bæði hvað varðar aðferðafræði við öflun gagna og útreikninga og einnig til hvers er horft við útreikninginn. Jafnvel á evrusvæðinu, þar sem lögð hefur verið mikil vinna í að samræma reglur um útreikning á vísitölu neysluverðs, getur verið umtalsverður munur milli landa hvað varðar öflun gagna, meðhöndlun þeirra og útreikning. Ríki á evrusvæðinu hafa til dæmis mikið sjálfræði um það hvar verðupplýsinga er aflað, hversu oft það er gert, hvernig meðalverð er reiknað og hvort og þá hvaða leiðréttingar eru gerðar þegar viðmiðunarkörfur breytast.
Burtséð frá tæknilegum álitamálum við útreikning á verðbólgu þá getur verðbólga verið afar breytileg frá einu svæði til annars, jafnvel þótt svæðin séu nálæg, innan sama myntbandalags eða jafnvel innan sama ríkis. Þannig varð verðbólga í Eystrasaltsríkjunum til dæmis umtalsvert hærri en á evrusvæðinu almennt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu þar sem Eystrasaltsríkin misstu aðgang að ódýrri rússneskri orku og urðu því fyrir mun meiri hækkun á orkuverði en Evrópa almennt.
Áhrif verðbólgu á einstaka þjóðfélagshópa geta einnig verið afar ólík þar sem neysla þeirra er ólík. Þannig er vægi matar- og húsnæðiskostnaðar almennt mun hærra hjá lágtekjuhópum og verðbólga sem er drifin áfram af þeim liðum hittir því þessa hópa mun verr fyrir en aðra. Lágtekjuhópar eru einnig ólíklegri til að eiga umtalsverðan verðtryggðan sparnað en efnameiri hópar, sem gerir eignastöðuna viðkvæmari fyrir verðbólgu.
Há og þrálát verðbólga er því ekki einungis efnahagslegt vandamál heldur hefur hún almennt bein og sársaukafull áhrif á fjölmenna hópa í samfélaginu og því viðbúið að við slíkar aðstæður komi upp hávær krafa um skjótar aðgerðir sem virka. Flestir átta sig þar á mikilvægi peningastefnu Seðlabankans og fjármálastefnu ríkisins en ýmsum finnst þó upp á vanta og reglulega koma fram í umræðunni hugmyndir eða kröfur um einhvers konar höft á verðlag eða laun.
Mannkynssagan hefur að geyma mýmörg dæmi um verðlagshöft af flestu tagi, bæði gömul og ný. Í dag er það þó almennt viðurkennt innan hagfræðinnar að jafnvel þótt til séu dæmi um gagnleg verðlagshöft, til dæmis þar sem einokun eða markaðsbrestur ríkir, þá séu höft á verðlag eða laun bæði kostnaðarsöm og skaðleg. Þak á orkuverð vinnur til dæmis gegn því langtímamarkmiði að stuðla að betri orkunýtingu og skiptum yfir í hagkvæmari orkugjafa, þak á vöruverð stuðlar að skorti á viðkomandi vöru og þak á launahækkanir getur valdið skorti á vinnuafli auk þess að draga úr hvatanum til að auka framleiðni. Öllum slíkum aðgerðum fylgir síðan umtalsverður kostnaður vegna opinbers eftirlits og aðgerða gegn sniðgöngu og svikum.
Til að vinna á þrálátri verðbólgu er því fátt annað í stöðunni en að sýna aga og þolinmæði og forðast aðgerðir sem við vitum að eru skaðlegar til lengri tíma í von um skjótfenginn árangur.