Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir samtökin ekki hafa átt von á því að verðbólga myndi aukast jafn mikið og raun bar vitni. Hún segir stýrivaxtalækkun í ágúst afar ósennilega.
Verðbólga mælist nú 4,2% og eykst á milli mánaða en hún mældist 3,8% í lok seinasta mánaðar.
„Við áttum alls ekki von á þessu, þetta eru mjög slæm tíðindi. Aukning verðbólgunnar var nokkuð yfir spám greiningaraðila“ segir Anna Hrefna í samtali við mbl.is.
Hún segir það verða mikil vonbrigði fyrir allt atvinnulífið ef Seðlabankinn lækkar ekki vexti þegar næsta stýrivaxtaákvörðun verður tekin í ágúst.
Vextir hafa verið lækkaðir í seinustu fimm vaxtaákvörðunum Seðlabankans. Aðspurð hvort um sé að ræða bakslag í baráttunni við verðbólgudrauginn segir Anna Hrefna svo vera.
„Það má segja það, vonandi sjáum við viðsnúning í næstu mælingu en við vorum að vonast eftir því að fá góðar verðbólgumælingar í aðdraganda næstu vaxtaákvörðunar enda held ég að allir séu að bíða eftir því að vextir lækki frekar.“
„Það er erfitt að segja hvað veldur hækkuninni en það er innlendur þrýstingur. Við höfum gagnrýnt það að ríkisstjórnin sé ekki að sýna nægilegt aðhald í ríkisfjármálum. Í þeim aðgerðum sem hún hefur boðað felst mikið útgjaldaaukning,“ segir Anna aðspurð um það hvað hún telji valda því að verðbólga aukist.
Launaþróun í landinu telur Anna einnig vera mögulegan orsakavald, launavísitala hefur hækkað mikið og Seðlabankinn hefur varað við launahækkunum í tengslum við verðbólguþróun.
„Við bendum á að um þessar mundir inniheldur launavísitalan tvær kjarasamningsbundnar hækkanir fyrir marga hópa meðal annars vegna tafa við gerð kjarasamninga. Mikil hækkun launavísitölu skýrist að mestu af tæknilegum ástæðum fremur en að mikið launaskrið sé á markaðnum,“ segir Anna og varar við því að atvinnurekendur horfi til vísitölunnar við ákvörðun launa.