„Í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands þar sem innmötunargjald Landsnets var dæmt ólöglegt, hefur HS Orka ákveðið að endurgreiða viðskiptavinum sínum það gjald sem þeir greiddu sérstaklega undir þessum lið.“ Þetta segir í tilkynningu frá HS Orku.
„Við höfum frá upphafi haft efasemdir um lögmæti þessa gjalds og því tekið þá afstöðu að sýna það sérstaklega á reikningum okkar. Nú þegar Hæstiréttur hefur staðfest ólögmæti þess, er eðlilegt og rétt að viðskiptavinir okkar fái það endurgreitt,“ segir Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri sölu og þjónusta hjá HS Orku, í tilkynningunni.
Þá segir að tímabilið apríl 2022 til október 2023 verði endurgreitt. Viðskiptavinir þurfi ekki að hafa samband eða sækja sérstaklega um endurgreiðsluna sem komi sem inneign á reikning viðskiptavina.