Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Ég var um það bil fjórtán ára þegar ég lærði að það má komast langt á fasinu einu saman.
Ég gekk í frekar fámennan grunnskóla og einhverra hluta vegna gerðist það eitt árið að mikill metnaður var lagður í skákstarfið þar. Fljótlega kom í ljós að ég var besti skákmaðurinn í öllum nemendahópnum og að minnsta kosti einu sinni neyddist ég til að mæta á skákmót fyrir hönd skólans.
Árangurinn við taflborðið skrifaðist þó ekki á að ég gæti hugsað marga leiki fram í tímann. Ég einfaldlega reyndi að velja besta leikinn í stöðunni hverju sinni, en lét fasið um afganginn. Ég hafði (á yfirborðinu) eins mikið sjálfstraust og nokkur gutti á gelgjuskeiðinu hefur nokkru sinni haft, og bæði ég og samnemendur mínir settumst að taflborðinu með því hugarfari að ég væri svakalega klár og myndi sennilega vinna. Skólafélagar mínir, sem allir þekktu mig nokkuð vel, virtust sannfærðir um að ég væri hálfgerður Kasparov, og fyrir vikið urðu þeir órólegir og ómarkvissir í skákinni á meðan ég einfaldlega lék einn leik í einu og beið færis. Þegar þeir litu upp frá taflmönnunum mætti þeim lymskulegt bros og hvasst augnaráð, og yfirleitt léku þeir af sér á endanum.
Fasið dugði hins vegar skammt þegar komið var á skákmótin þar sem mér var stillt upp á móti ekta skáksnillingum sem höfðu fengið alvöru þjálfun og stúderað leikinn af einhverju viti. Þegar ég mætti í fyrsta skipti í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur í Skeifunni var ég svo stressaður að maginn fór í hnút og ég varð að taka stefnuna beint inn á klósett. Mér er minnisstætt hvernig einn andstæðingurinn – hvort hann kom frá Hagaskóla eða Æfingaskólanum – var með hugann við eitthvað allt annað en leikinn og hafði samt ekkert fyrir því að rúlla mér upp. Enda hafði hann ekki frétt hvað ég væri snjall, og töffaralega fasið hafði horfið ofan í klósettskálina á annarri hæð í Faxafeni 12.
Sumir fréttaskýrendur fullyrða að málalyktir í átökum Írans og Ísraels séu til marks um takmarkalausa færni Donalds Trumps: að hann hafi séð fyrir hvern einasta leik og beitt blekkingum, þrýstingi og hernaðarvaldi af ótrúlegri fimi og nákvæmni, og hann eigi heima á stalli með mestu hernaðar- og stjórnmálasnillingum sögunnar. Mig grunar að Trump sé frekar eins og íslenski unglingurinn sem vann hverja skákina á fætur annarri á sjálfstraustinu einu saman.
En þó svo hann spili eftir eyranu og fylgi aðallega innsæinu breytir það ekki því að aðferðir Trumps hafa virkað, og nú þegar hálft ár er liðið af kjörtímabilinu virðist langþráð friðar- og stöðugleikatímabil innan seilingar.
Atburðarásin undanfarna daga hefur verið svo hröð að erfitt hefur verið að henda reiður á öllu sem gerðist. Heimsins bestu fréttaskýrendur hafa átt fullt í fangi með að greina aðdraganda og orsakir, og halda einhverri yfirsýn yfir atburðarásina.
Eitt af því sem ekki hefur fengið mikla athygli er að aðgerðir Ísraelshers snerust ekki bara um getu Írans til að koma sér upp kjarnavopnum. Ekki síður mikilvægur hvati fyrir árásunum á Íran var sú ákvörðun stjórnvalda í Teheran að stórauka framleiðslu hefðbundinna skotflauga. Eldflaugavarnarkerfi Ísraels eru takmörk sett, og ef Teheran hefði fengið að margfalda skotflaugabirgðir sínar hefði verið raunveruleg hætta á árásum sem gætu bugað varnir Ísraelanna.
Annað sem gott er að halda til haga er að fyrirbyggjandi árásir hafa í marga áratugi verið mikilvægasta stoðin í vörnum Ísraels. Ísrael er agnarsmátt land og ísraelski herinn er fámennur miðað við heri nágrannaþjóðanna, og því væri illmögulegt að halda uppi vörnum ef óvinaþjóð reyndi að gera árás. Ísrael vaktar óvini sína vel, fylgist grannt með öllum hættum og leyfir þeim ekki að verða að raunverulegri ógn.
Menachem Begin lýsti þessari stefnu með skýrum hætti árið 1981 eftir að Ísraelsher sprengdi í loft upp kjarnakljúf sem var í smíðum skammt suður af Bagdad. Ísrael var harðlega gagnrýnt fyrir árásina en í dag er almennt litið svo á að með aðgerðinni hafi tekist að koma í veg fyrir að Saddam Hussein kæmi sér upp kjarnavopnum.
„Við ákváðum að láta til skarar skríða núna, því að það gæti verið of seint að bregðast við síðar. Ef við hefðum staðið aðgerðalaus hjá hefði Saddam á tveimur, þremur eða í mesta lagi fjórum árum getað látið smíða þrjár, fjórar eða fimm sprengjur. Og það hefðu verið sögulok fyrir [Ísrael] og [ísraelskan almenning], og gyðingarnir hefðu þurft að fara í gegnum aðra helför. Við látum það aldrei gerast aftur!“ útskýrði Begin. „Segið því vinum ykkar, og öllum sem á vegi ykkar verða, að við munum vernda fólkið okkar með öllum tiltækum ráðum. Við munum ekki leyfa óvinum okkar að þróa gjöreyðingarvopn sem hægt væri að beita gegn okkur.“
Oft hafa þessar fyrirbyggjandi árásir farið öfugt ofan í alþjóðasamfélagið, en yfirleitt hefur verið um að ræða mjög hnitmiðaðar aðgerðir sem auðvelt var að réttlæta. Stundum hefur það jafnvel bara tekið nokkra daga að uppræta ógnina og hefur þá ekki legið á Ísrael að slíðra sverðin. Alltaf hefur verið reynt, eftir fremsta megni, að lágmarka mannfall á meðal almennra borgara og eyðileggja aðeins hernaðarleg skotmörk.
Það hefur komið fram annars staðar að átakahrinan sem hófst 13. júní hefur breytt valdajafnvæginu í Mið-Austurlöndum, og um leið opnað nýja vídd í hernaðarstefnu Bandaríkjanna.
Yfirburðir Ísraels á sviði hernaðar og njósna fara ekki lengur á milli mála. Mossad er með augu og eyru á hverri þúfu og ísraelsku skotflaugarnar gætu hæft spilastokk úti í miðri eyðimörkinni.
Niðurlæging Írans er algjör, og Íransher hefur sama sem enga getu til að verja eigið land og lofthelgi ef Ísrael skyldi vilja sprengja írönsk skotmörk. Veik staða Írans kristallaðist ef til vill best í örlögum Hosseins Salami sem stýrði 125.000 manna varðliði íslömsku byltingarinnar. Þann 12. júní var Salami heitt í hamsi þegar hann sagði blaðamönnum að það yrði Ísrael fyrir verstu að reyna að ráðast á Íran. Herlið Írans væri reiðubúið fyrir hvað sem er. Næsta dag átti Salami stefnumót við ísraelskt flugskeyti.
Þeir liðsmenn Hamas sem enn tóra fela sig ofan holum, og springandi símboðar upprættu skipuritið hjá Hesbollah. Bashar al-Assad er flúinn til Moskvu og nýir ráðamenn í Sýrlandi virðast ætla að vera til friðs, en staða klerkastjórnarinnar í Íran hefur aldrei verið veikari. Virðist eins og allt fólkið í þessum heimshluta geti núna varpað öndinni léttar.
Best af öllu er hvernig Bandaríkjaher gat staðið til hliðar á meðan Ísrael og Íran útkljáðu málin. Trump var greinilega hafður með í ráðum og á augljóslega hlutdeild í því hve vel aðgerðir Ísraelshers heppnuðust, og svo ráku bandarískar herþotur – þær fullkomnustu í heimi – smiðshöggið á verkið með „byrgjabönum“ sem enginn annar her á til í sínu vopnabúri, og Trump þurfti hvorki að færa pólitískar né efnahagslegar fórnir.
Sex mánuðir eru liðnir síðan Donald Trump sneri aftur í Hvíta húsið og í dag dylst það engum að Trump er ekkert lamb að leika sér við. Hann vill semja, og halda friðinn, en veit líka að stundum þarf að fara í hart.
Suma daga er ég alveg við það að gefast upp á Trump, og skemmtilegast þætti mér að hafa djúpvitran séntilmann í embætti Bandaríkjaforseta. En það er ágætt að muna hvers konar fólk er við völd í þeim löndum sem eru til vandræða í alþjóðasamfélaginu, og hvaða handtökum þarf að beita til að valdagráðugir og vanstilltir harðstjórar haldi sig á mottunni. Ég held að Trump nái miklu betur í gegn hjá þannig fólki en siðprúða og fína gerðin af stjórnmálamönnum sem fylla fundarherbergin í París, Berlín og Brussel.
Eða hvernig er landslagið í dag? Það glittir í frið í Úkraínu, og Trump tókst að róa Indland og Pakistan þegar ætlaði að sjóða þar upp úr. Verstu skúrkarnir í Mið-Austurlöndum eru úr leik og vinaþjóðirnar í Nato eru í viðbragðsstöðu.
Þetta þýðir að bráðum verður fátt sem gæti dreift athyglinni frá Kína, og líkurnar á að ráðamenn í Peking reyni að ráðast á Taívan hljóta að hafa snarminnkað.
Hvort það er fasinu að þakka, eða herkænsku á pari við Napóleon Bónaparte og Júlíus Sesar, þá hefur Trump tekist að valda hvern einasta reit á taflborðinu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.