Gríðarlegar tekjur sem þátttökuliðin á heimsmeistaramóti félagsliða karla í knattspyrnu í Bandaríkjunum fá fyrir að vera með hafa skyggt á óánægju margra yfir því að bæta enn einu stórmótinu á dagskrá liða og leikmanna.
Sky Sports greinir frá því að Chelsea hafi þegar tryggt sér 36,5 milljónir punda, rúma 6 milljarða króna, í tekjur af þátttöku í keppninni eftir að hafa náð öðru sæti í sínum riðli og leiki þar með í sextán liða úrslitunum um næstu helgi.
Chelsea sé þar með þegar búið að fjármagna kaupin á framherjanum efnilega Liam Delap sem félagið keypti frá Ipswich Town fyrr í sumar fyrir 30 milljónir punda, rúma fimm milljarða króna.
Delap hjálpaði enn meira til með því að skora eitt marka liðsins í lokaleik riðlakeppninnar síðustu nótt þegar Chelsea vann Esperance frá Túnis, 3:0.
Sigurliðið í keppninni, sem lýkur með úrslitaleik 13. júlí, fær andvirði 112 milljóna punda í sigurlaun, eða um 18,7 milljarða íslenskra króna.