Þær norsku heppnar gegn Finnlandi

Noregur vann nokkuð óverðskuldaðan sigur á Finnlandi, 2:1, í A-riðli Evrópumóts kvenna í knattspyrnu en leikurinn hófst klukkan 16 í Sion í Sviss í dag. 

Noregur er kominn með sex stig, fullt hús í riðlinum og er í efsta sæti en Finnland er í öðru sæti með þrjú stig. Sviss og Ísland eru án stiga í þriðja og fjórða sæti og mætast í kvöld. 

Noregur mætir Íslandi í síðasta leik riðilsins á fimmtudaginn kemur en Finnland mætir Sviss samdægurs. 

Norska liðið var ekki lengi að ná forystunni því á þriðju mínútu skoraði Eva Nyström sjálfsmark í liði Finnlands. Þá lék Caroline Graham Hansen Joönnu Tynnilä grátt og keyrði inn á teig Finna þar sem hún sendi boltann þvert fyrir markið og hann hafnaði í netinu af hælnum á Nyström, 1:0.

Þær norsku fagna fyrra markinu.
Þær norsku fagna fyrra markinu. AFP/Fabrice Coffrini

Á 15. mínútu leiksins slapp Linda Sällström í liði Finna í gegn og átti þrusufast skot á lofti en Cecilie Fiskerstrand varði meistaralega. 

Níu mínútum síðar fékk Ingrid Engen dauðafæri þegar Vilde Böe Risa gaf sendingu fyrir og hún stangaði boltann í slána og niður.

Á 30. mínútu fékk Ada Hegerberg dauðafæri í liði Noregs en Anna Koivunen varði glæsilega frá henni. 

Tveimur mínútum síðar jafnaði Oona Sevenius metin með glæstri afgreiðslu. Þá tapaði norska liðið boltanum á sínum vallarhelmingi og Oona Siren sendi boltann á Sevenius sem var rétt innan teigs og smellti honum í fjærhornið, 1:1.

Oona Sevenius fagnar jöfnunarmarkinu ásamt fyrirliðanum Lindu Sällström.
Oona Sevenius fagnar jöfnunarmarkinu ásamt fyrirliðanum Lindu Sällström. AFP/Miguel Medina

Finnska liðið var mun betra og skapaði sér nokkur góð færi það sem eftir var af fyrri hálfleik, en tókst ekki að koma boltanum í netið.

Finnland hélt áfram að vera betri aðilinn og á 63. mínútu komst Eveliina Summanen í gott skotfæri sem Fiskerstrand varði í stöngina. 

Caroline Graham Hansen fékk dauðafæri á 81. mínútu leiksins. Þá datt boltinn fyrir hana í miðjum teignum og hún fékk tækifæri til að athafna sig en setti boltann ótrúlega hátt yfir markið. Magnað að Noregur komst ekki yfir í þeirri sókn. 

Graham Hansen var aftur á móti aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar en þá kom hún Noregi yfir á nýjan leik. Hún dansaði í gegnum varnarmenn Finna og vippaði síðan boltanum fyrir markið og hann fór í stöngina og inn. Var mögulega að reyna sendingu á Hegerberg en boltinn hafnaði í netinu, 2:1, og þar við sat. 

mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin
OSZAR »