Jón Daði Böðvarsson lítur stoltur til baka á stórmótin tvö sem íslenska landsliðið í knattspyrnu fór á árin 2016 og 2018.
Jón Daði er kominn heim til Selfoss eftir 13 ára fjarveru í atvinnumennsku. Þar lék hann með liðum í Noregi, Þýskalandi og Englandi.
Jón Daði var þá í stóru hlutverki á bæði EM 2016 og HM 2018 og skoraði meðal annars gegn Austurríki á því fyrrnefnda.
„Ég lýg því ekki að þetta er eitthvað það fáránlegasta sem hefur gerst á mínum ferli. Velgengin með landsliðinu er eitthvað sem mun alltaf vera í hjarta manns. Hversu góð áhrif það hafði á samfélagið í heild sinni er líka eitthvað sem ég er mjög stoltur af.
Þessi tími var yndislegur en það var þá og nú eru líka spennandi tímar fram undan,“ sagði Jón Daði í samtali við mbl.is.