Þingfundi sem hófst á Alþingi klukkan 10 í gærmorgun lauk ekki fyrr en klukkan hálf fimm í morgun.
Fundi þingflokksformanna um þinglok lauk án árangurs skömmu eftir klukkan 23 í gærkvöld og hófust ræðuhöld í þingsal á ný þar sem þingmenn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknar héldu áfram annarri umræðu um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Ráðherrar sáust á vappi í þinghúsinu og fjármálaráðherra hitti þingflokksformenn, en það virðist ekki hafa hrokkið til. Hljóðið í þingmönnum sem Morgunblaðið innti frétta hjá var ekki mjög uppörvandi. Flestir telja að það strandi helst á veiðigjaldamálinu.
Þingfundur hest að nýju klukkan 10. Minnst verður látins fyrrverandi alþingismanns, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, áður en haldið verður áfram annarri umræðu um veiðigjaldafrumvarpið þar sem sjö þingmenn eru á mælendaskrá, Þórarinn Ingi Pétursson, Jón Pétur Zimsen, Jens Garðar Helgason, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Þorgrímur Sigmundsson og Ingibjörg Davíðsdóttir.