Kjartan Leifur Sigurðsson
Aðeins fjórum starfsmönnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og undirstofnana þess hefur verið veitt áminning fyrir brot í starfi frá árinu 2015.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur á Alþingi.
Í fyrirspurninni var óskað eftir upplýsingum um fjölda áminninga sundurliðað eftir ráðuneytum. Í svarinu segir þó að þrátt fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið fari með umsjón á starfsmannamálum ríkisins séu ekki til miðlægar upplýsingar um áminningar allra starfsmanna ríkisins.
Ein áminning var veitt starfsmanni Tollstjóra árið 2016 og önnur áminning var svo veitt starfsmanni Ríkisskattstjóra árið 2018.
Frá því að Framkvæmdasýsla ríkisins og Ríkiseignir runnu saman í eitt hafa tvær áminningar verið veittar starfsmönnum hinnar sameinuðu stofnunar.
Engin stofnana ráðuneytisins hefur fengið skipaðan tilsjónarmann með rekstri eða annarri starfsemi sinni frá árinu 2015.