Draumur að sjá fyrirmyndir á stórmóti

Andrea, Hafsteinn og Rebekka í borginni Thun, að sjálfsögðu í …
Andrea, Hafsteinn og Rebekka í borginni Thun, að sjálfsögðu í búningum frá Boltamanninum. Ljósmynd/Aðsend

Draumur ungrar fótboltastelpu úr Breiðabliki, Rebekku Bóel Hafsteinsdóttur, rætist í dag þegar hún verður viðstödd fyrsta leik íslenska kvennalandsliðsins á EM í Sviss.

Foreldrar hennar, þau Hafsteinn Ómar Gestsson og Andrea Bóel, eru með henni í för og segir Hafsteinn Ómar það lengi hafa verið draum dóttur sinnar að sjá fyrirmyndirnar spila á stórmóti.

Kom aldrei annað til greina

„Það kom aldrei neitt annað til greina en að kíkja út,” segir Hafsteinn, sem rekur verslunina Boltamanninn.  

Þau verða á meðal 1.375 stuðningsmanna Íslands á leiknum í dag þegar Ísland spilar við Finnland á Thun Arena í borginni Thun. 

Hittir vinkonur úr boltanum

Árið 2016 fóru þau Hafsteinn og Andrea með eldri börnin sín á EM karla í Frakklandi en þetta er í fyrsta sinn sem Rebekka, sem er 13 ára, fær að upplifa stórmót í fótbolta.

„Það er mikill spenningur. Við förum á leik eitt og tvö. Hún verður hérna á báðum leikjum með fullt af vinkonum sínum úr boltanum,” bætir Hafsteinn við aðspurður en seinni leikurinn verður gegn heimakonum í Sviss á sunnudaginn. 

Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Á aðdáendasvæði í sól og blíðu

Þegar blaðamaður ræddi við hann voru þau í lest á leiðinni til Thun. Eftir að þríeykið hefur komið sér fyrir á hóteli er förinni heitið á aðdáendasvæði þar sem vinkonur Rebekku verða einnig staddar.

„Við ætlum að vera þar í góðri stemningu og rölta svo saman á völlinn.”

Sól og 30 stiga hiti er í Sviss og ekkert því til fyrirstöðu að dagurinn verði hinn eftirminnilegasti.  

Spáir íslenskum sigri

Beðin um að spá fyrir um úrslit leiksins, stígur Rebekka fram og spáir Íslandi sigri, 2:1, með mörkum frá Sveindísi Jane Jónsdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »