Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála lýsi afstöðu sinni til kvörtunar íbúa við Klapparstíg og Skúlagötu vegna meðferðar nefndarinnar á mótmælum þeirra er strætóstöð var komið fyrir við Skúlagötu í óþökk þeirra. Umboðsmaður fer í bréfi sínu einnig fram á að nefndin veiti ítarlegar upplýsingar og skýringar.
Bréfið felur í sér ítarlega fyrirspurn til úrskurðarnefndar og er hún krafin svara í ellefu liðum. Af orðalagi bréfsins má ráða að umboðsmaður hafi ýmsar athugasemdir við stjórnsýsluna í þessu ferli.
Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu kærði húsfélagið Völundur, sem er félag íbúðareigenda í sex húsum við Klapparstíg og einu við Skúlagötu, breytingu Reykjavíkurborgar á deiliskipulagi við Skúlagötu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var þess krafist að framkvæmdaleyfi yrði fellt úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar. Nefndin hafnaði þeirri beiðni. Íbúarnir heldu því fram að deiliskipulagstillagan sem samþykkt var væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag og því óheimil.
Sem kunnugt er var strætóstöðin flutt á Skúlagötu tímabundið meðan á endurbótum við Hlemm stendur. Íbúar við Skúlagötu segjast hafa orðið fyrir verulegum óþægindum vegna næturumferðar Strætó og annarrar strætisvagnaumferðar þar.
Í bréfi umboðsmanns segir að deiliskipulagsbreytingin hafi verið auglýst eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða. Í úrskurði nefndarinnar er þó lagt til grundvallar að breytingin hafi verið óveruleg og þar af leiðandi ekki háð ákvæðum laga um umhverfismat. Er nefndin beðin að skýra hvaða lagasjónarmið liggi að baki þessari afstöðu. Jafnframt verði skýrt hvaða þýðingu þessi afstaða nefndarinnar hafði fyrir niðurstöðu málsins.
Í bréfinu er rakið að ekki virðist hafa verið gerð grein fyrir umhverfisáhrifum breytingartillögunnar í greinargerð fyrr en eftir að Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við skort á því með bréfi og engin grein hafi verið gerð fyrir valkostamati. Er nefndin beðin að upplýsa hvort rétt sé að hún hafi talið meðferð málsins í ósamræmi við skipulagslög og hvort annmarkar hafi þá verið á auglýsingu skipulagstillögunnar. Þess er sérstaklega óskað að nefndin lýsi afstöðu sinni til þess hvort hagsmunaaðilar hafi haft fullnægjandi forsendur til að gera athugasemdir við tillöguna.
„Þess er óskað að nefndin skýri nánar hvaða lagasjónarmið bjuggu að baki þeirri afstöðu að sá annmarki, sem hún taldi vera á meðferð málsins af hálfu Reykjavíkurborgar, réði ekki úrslitum um gildi skipulagsbreytingarinnar,“ segir í bréfinu.
Þá er nefndin beðin að skýra hvort önnur áhrif á hagsmuni íbúa en hljóðmengun, svo sem loft- og sjónmengun, hafi verið metin með fullnægjandi hætti. Óskað er eftir að upplýst sé á hvaða gögnum og upplýsingum sú afstaða byggðist og hvort rannsókn á þessum þætti málsins hafi samrýmst 10. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Nefndin er einnig beðin að skýra nánar hvort hún líti svo á að Reykjavíkurborg hafi látið fara fram fullnægjandi valkostamat við val á Skúlagötureit fyrir strætóstöð.
Að síðustu óskar umboðsmaður eftir að nefndin lýsi viðhorfum sínum til þess hvort og þá hvernig rökstuðningur fyrir niðurstöðu nefndarinnar samrýmdist 31., sbr. 22. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarnefnd hafði frest til 18. júní síðastliðins til að afhenda umboðsmanni öll fyrirliggjandi gögn málsins og umbeðin svör. Ekki fengust upplýsingar hjá umboðsmanni í gær um hvort svör nefndarinnar hefðu borist.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.