Gervigreind er á alla vörum og er nýtt á ýmsum sviðum, þar á meðal í listsköpun, því fréttir eru af því til að mynda að gervigreind skrifi skáldsögur og búi til hljóðbækur. Rithöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir segir að í raun hafi menn aldrei spurt sig af því fyrir hvern gervigreind sé eiginlega.
Arndís er þekkt fyrir bækur handa börnum, ungmennum og fullorðnum, en hún hefur einnig tjáð sig um gervigreind. Í viðtali í Dagmálum segir hún að með gervigreindinni fylgir ótal spurningar og þá ekki síst sú spurning fyrir hvern hún sé eiginlega. „Það sem mér finnst verst er að það hefur enginn spurt fyrir hvernig er þetta. Öll þessi þróun keyrir á einhverjum óljósum hugmyndum eða ljósum um hagnað fyrir fá fyrirtæki.
Almenningur hefur ekki verið að kalla eftir gervigreind og ég held að almenningur vilji ekki vera milliliður á milli tveggja véla. Af því að mjög hratt verður það þannig. Það var í fréttum í vikunni að bandarískt dagblað birti grein þar sem var verið að mæla með frábærum bókum inn í sumarlesturinn án þess að verða þess vart að gervigreindin sem hafði skrifað greinina hafði logið upp öllum bókunum í henni.
Í greininni segir: grípum með ykkur á ströndina nýju bókina eftir Isabella Allende og síðan kemur bara einhver titill sem hún hefur aldrei skrifað sem er bara hugarórar gervigreindarinnar. Ímyndum okkur að við getum fengið gervigreindina til að hætta að ljúga og virki eins og hún á að virka, vill fólk það samt? Vill fólk fá ábendingar um lesefni frá vél?
Við höfum líka áhyggjur af því að nemendur séu í auknum mæli að nota gervigreind í námi. Ef kennarar eru líka farnir að nota gervigreind í auknum mæli við kennslu, hvað er þá nám? Ef kennarinn er að framleiða kennsluefni með aðstoð gervigreindar og nemendur eru að taka við því sömuleiðis með aðstoð gervigreindar, hvaða hlutverki höfum við þá að gegna þarna á milli?
Stundum spila ég skrafl á netinu og ef ég er í vandræðum hef ég stundum laumast til að spyrja skraflhjálpina. Þá hugsa ég: hér er þessi þjarkur að hjálpa mér að segja hvað ég á að segja við hinn þjarkinn sem ég er að spila við. Það er mjög skrýtið. Og það verður líka skrýtið ef þú ætlar að skrifa mér tölvupóst og biður gervigreindina um að skrifa hann fyrir þig og gervigreindin skrifar langan tölvupóst og ég hugsa: ég nenni nú ekki að lesa hvað hann Árni er að þvæla núna. Hendi þér í gervigreindina og bið hana: heyrðu, nennirðu að taka þetta saman fyrir mig og rusla upp svari líka og senda til baka? Það verður mjög skrýtið mjög hratt.“