Reykjavíkurborg áformar að byggja 64 nýjar íbúðir í Breiðholti. Stefnt er að fjölbreyttari íbúðasamsetningu með áherslu á fjölskylduíbúðir.
Áformin voru tilkynnt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í gær. Þá eru lóðartillögurnar framhald af vinnu hverfisskipulags sem samþykkt var árið 2022.
Verkefnið er hluti af átaki Reykjavíkurborgar sem miðar að flýtingu uppbyggingar í borginni allri, segir í tilkynningu.
Framkvæmdir verða mestar við Suðurhóla, þar sem stefnt er að byggingu 42 nýrra íbúða. Þá gerir tillagan ráð fyrir lágreistri byggð á tveimur til þremur hæðum. Íbúðirnar verða 120-148 fermetrar að meðalstærð.
Fyrirhugað er að reisa fjölnota hús á þremur hæðum við gatnamót Austurbergs og Hraunbergs, þar sem nú er grasbakki. Gert er ráð fyrir að húsið rúmi 16 íbúðir.
Jafnframt er áformað að byggja sex nýjar íbúðir við Krummahóla sem skilgreint er nú sem stórbílastæði og opið svæði. Verða íbúðirnar í formi rað- og parhúsa á tveimur hæðum.