Almenningur getur rýnt í gögnin

Hverfið á að rúma 12 þúsund manns.
Hverfið á að rúma 12 þúsund manns. Mynd/FOJAB

Almenningi gefst á næstunni tækifæri til að rýna í gögn í tengslum við uppbyggingu nýs hverfis á Keldnalandi í Reykjavík.

Áætlað er að skipulagsvinnu vegna hverfisins ljúki í byrjun næsta árs en fullbyggt mun hverfið rúma 12 þúsund manns.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær að opna skipulagsferlið með því að forkynna vinnslutillögu að rammahluta aðalskipulags, ásamt drögum að þróunaráætlun, hönnunarbók og samgönguskipulagi.

„Málinu var vísað til borgarráðs og eftir afgreiðslu þess verða gögnin gerð aðgengileg á skipulagsgáttinni og þá gefst fólki tækifæri til að rýna þau og koma sínum sjónarmiðum á framfæri, sem horft verður til í ferlinu,” segir í tilkynningu.

Búist er við því að gögnin verði komin inn á skipulagsgátt í lok næstu viku og þar verða þau aðgengileg öllum. Áætlað er að í ágúst fari fram viðburðir að Keldum til kynningar á vinnslutillögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »