Sautján ára gamall drengur lést af völdum drukknunar í litlu stöðuvatni nálægt Hróarskeldu á Sjálandi fyrr í dag.
Þessu greinir danska ríkisútvarpið DR frá.
Drengurinn var frá Kaupmannahöfn og var staddur í Hróarskeldu til að sækja hina geysivinsælu tónlistarhátíð sem þar fer nú fram.
Hátíðargestir urðu varir við fjölda lögreglu- og sjúkrabíla sem keyrði í átt að Himmelsøen, litlu stöðuvatni nálægt hátíðarsvæðinu, fyrr í dag.
Tilkynnt var um andlátið í færslu lögregluembættis Mið- og Vestur-Sjálands á samfélagsmiðlinum X nokkru síðar.
Í færslunni segir að enn sé unnið að því að rannsaka hvernig andlátið bar að, en þær upplýsingar sem liggi fyrir bendi til þess að um slys hafi verið að ræða.
Algengt er að gestir og heimamenn baði sig í vatninu, sem er um 11 metra djúpt þar sem það er dýpst.
Vegna hitabylgjunnar sem nú geisar í Evrópu er ekki ólíklegt að hátíðargestir hafi notað vatnið til að kæla sig meðan mesti hitinn, 31 gráða, reið yfir.
Skipuleggendur hátíðarinnar segjast miður sín yfir atvikinu og senda innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda að því er Ekstra Bladet greinir frá.