Meira en 14 milljón manns sem tilheyra viðkvæmustu hópum heims, þriðjungur þeirra börn undir fimm ára aldri, gætu dáið vegna niðurskurðar ríkisstjórnar Donalds Trump á þróunaraðstoð Bandaríkjanna.
Þetta er niðurstaða rannsóknar sem birtist í nýjasta tölublaði Lancet Journal í dag.
Leiðtogar heimsins safnast nú saman á Spáni til að sækja ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í vikunni til stuðnings þróunaraðstoð á heimsvísu. Bandaríkin munu þó ekki senda fulltrúa til hennar.
Bandaríska þróunarsamvinnustofnunin USAID hafði staðið fyrir 40% allra fjárframlaga til mannúðaraðstoðar þar til Trump sneri aftur í Hvíta húsið í janúar.
Tveimur vikum eftir að Trump tók við embætti hreykti Elon Musk, ríkasti maður heims og þá náinn samstarfsmaður Trump, sér yfir því að hafa sett stofnunina „í tætarann“.
Niðurskurðurinn skapar hættu á því að tveggja áratuga framfarir í heilbrigðismálum meðal viðkvæmra þjóðfélagshópa stöðvist skyndilega – eða gangi jafnvel til baka, segir Davide Rasella, einn rannsakenda.
Eftir að hafa skoðað gögn frá 133 löndum segja rannsakendur að fjármagn frá USAID hafi komið í veg fyrir 91 milljón dauðsfalla í þróunarlöndum á árunum 2001-2021.
Þeir segja jafnframt að ef fjárveitingar til stofnunarinnar væru skornar niður um 83% – tala sem tilkynnt var af stjórnvöldum fyrr á árinu – gæti það leitt til 14 milljón dauðsfalla sem hægt væri að koma í veg fyrir samkvæmt spám reiknilíkana.
Eftir að USAID var sett í gegnum tætarann tilkynntu önnur ríki, til dæmis Þýskaland, Bretland og Frakkland að þau hyggðust einnig skera niður í eigin fjárveitingum til þróunaraðstoðar.
Rannsakendur leggja þó áherslu á það að talan yfir möguleg dauðsföll geti snarlækkað ef fjárframlög aukast á ný.